Fréttir

30 mínútna kjarna tími kl 18:30 í dag.

Anna er að kenna troðfullan hádegistíma í Body Pumpi núna.  Allir tímar eru að fyllast og aðsóknin í tækjasalinn er mikil.  Við bendum á nýjan tíma kl 18:30 á fimmtudögum, 30 mínútna core, CXWORX.  Ótrúlega góðir tímar fyrir kjarna líkamans.  Frábærir fyrir alla, íþróttafólk sem vill gera betur í sinni íþrótt, skrifstofumanninn sem þarf að geta setið við tölvuna allan daginn, bílstjórann sem þarf að geta setið í bílnum allan daginn, verslunarfólk sem er á stjáklinu allan daginn.  Ef miðjan er sterk þá er lífið auðvelt.

Aukatími fyrir lífsstíl, Gravity vefjagigt og Gravity Extra.

Við ætlum að bjóða uppá aukatíma í Hot Yoga, teygjum og slökun í heitum sal annan hvern fimmtudag kl 18:30 og annan hvern föstudag kl 16:30 fyrir þau sem eru á lífsstílsnámskeiði, Gravity vefjagigt og Gravity extra.  Fyrsti tíminn verður næsta fimmtudag kl 18:30.  Rólegra og einfaldara yoga, meiri teygjur og slökun í restina.  Tökum svo tíma með foamrúllum og etv litlum boltum og enn meiri teygjum í volgum sal.  Ekki alltaf yoga.

Grit námskeið

Viltu komast í svaka form og æfa með Tryggva og Önnu 2x í viku kl 6:10?  Grit eru nýir tímar frá Les Mills og kannski þeirra svar við CrossFit.  30-45 mínútna tímar, stuttir, snarpir og krefjandi.  6 vikna námskeið byrjar þriðjudaginn 22. janúar og hópurinn verður lítill því þetta er einstaklingsmiðuð þjálfun.  Þetta er ekki námskeið fyrir byrjendur.  Skráning er hafin, fyrstir koma, fyrstir fá.

Línudans

Berglind Rafnsdóttir byrjar í næstu viku að kenna línudans hér í kjallaranum.  Hún verður með framhaldshópinn á þriðjudögum kl 20 og byrjendur á miðvikudögum kl 20.  Hver tími kostar 600kr.  Skemmtilegir dansar við flotta tónlist. Frítt í fyrstu tvo tímana.

Gravity extra og Nýtt útlit

16 .30 námskeiðin: Gravity extra og Nýtt útlit eru að byrja í dag.  Vefjagigtargravity hóparnir tveir byrjuðu í gær og lífsstíll og Nýtt útlit 6:10 og Nýtt líf 9:30 byrja þann 14.  Gravity fyrir 60 ára og eldri er byrjað og unglingarnir fara af stað 14. janúar.  Alls eru þetta 10 hópar og því mikið um að vera.  Gott er að mæta daginn áður t.d. og borga og jafnvel fara í mælingar (lífsstíll) um helgina.

Frumflutningur á Body Balance

Hólmfríður og Aðalbjörg eru með reyndustu Body Balance kennurum landsins.  Í dag kl 17:30 ætla þær að frumflytja nýjan Balance frá Les Mills númer 59.  Body Balance tímarnir eru skemmtileg blanda af góðum jóga og pilatesæfingum sem eru framkvæmdar í flæði við einstaka tónlist.  Í upphafi tímans fá allir að kynnast Tai Chi, einföld upphitun þar sem öndunin hjápar við að kyrra huga og tilfinningar. 

Unglingaþrek

Frábær námskeið hjá Birnu og Tryggva.  Skráning stendur yfir og þau byrja 14. janúar.

Námskeið að fyllast

Fullt er á bæði vefjagigtar Gravity námskeiðin.  Einnig er fullt á Nýtt útlit kl 16:30 og 3 laus pláss á Gravity Extra.  Nóg pláss er enn á Lífsstíl og Nýju útliti kl 6:10 og 9:30. 

Villa í auglýsingu

Í síðustu auglýsingu í N4 dagskránni kemur fram að við séum að skrá í CrossFit og 6x6x6 og fleiri námskeið sem eru ekki á dagskrá.  CrossFit er komið í frí hjá okkur en Grit kemur í staðinn, sem fyrst eftir miðjan janúar.  6x6x6 er námskeið fyrir konur og karla sem geta æft 6x í viku í 6 vikur og 6 kg hverfa.  Við höfum ekki pláss fyrir þetta námskeið eins og er en það gæti farið af stað í febrúar.  Bendum á Nýtt útlit í staðinn og Grit kl 6:10 á morgnana.

Ný tímatafla á mánudag

Við byrjum á fullu á mánudaginn næsta.  Fullt af spennandi tímum og barnagæslan fer á fullt.  Við höfum þétt tímatöfluna og farið eftir óskum ykkar við ákveðnar breytingar.  Töluvert var beðið um lengri og fleiri spinningtíma kl 6:10 á morgnana og því ætlar Óli að hjóla meira á mánudagsmorgnum og gera svo góðar æfingar fyrir miðjuna á eftir.  Fleiri þrektímar var ein óskin og við erum með 8 opna þrektíma á viku og Óli og Elvar kenna á móti Hóffu og Bryndísi á þriðjudögum og fimmtudögum sem ætti að virka hvetjandi fyrir karlana að mæta.