Fréttir

Síðasti laugardagurinn fyrir sumardagskrá!

Það verður Ólatími og Body Balance á laugardaginn og lokuðu Gravitytímarnir (eflaust hægt að smygla sér inn í þá, einhverjir í burtu vegna Hvítasunnu). Body Jam tíminn fellur niður. Biðjumst afsökunar á hvað margir Jam tímar hafa fallið niður. Abba fór í speglun á hné og er að reyna að vera stillt og skemma ekki það sem var gert.

Fjallgöngur í sumar

Við ætlum á Herðubreið í sumar og tvær ferðir á Súlur. Hjólahópurinn verður með þríþraut helgina eftir verslunarmannahelgi og byrja að synda á Laugum, hjóla og hlaupa og enda á Húsavík.

Bjargið!

Útisvæðið er að taka á sig mynd þessa dagana og rífandi gangur í þessu. Núna er búið að setja 7 tonna grjóthnullung á svæðið og verður hann kallaður Bjargið. Hitalögnin er komin og allt að verða tilbúið fyrir hellulögn. Svo fer gufan upp bráðum og útisturtan.

Sólarlagshlaup

Sólarlagshlaup UFA verður föstudaginn 26. maí. Nú er ætlunin að hlaupa kringum Ólafsfjarðarvatn, 14-17km. Þetta er ekki keppnishlaup heldur samvera í fallegu umhverfi. Lagt verður af stað frá Bjargi kl 20:30 og frá sundlauginni í Ólafsfirði kl 22:00. Eftir hlaup verður svo farið í sund.

Fjórar náðu 10% léttingu á lífsstílsnámskeiði

Þá eru lífsstílsnámskeiðin búin þennan veturinn. Aldrei hefur aðsókn verið eins mikil og þennan vetur og við verið með 3-5 hópa í gangi í einu. Arnbjörg Stefánsdóttir, Ólöf Ómarsdóttir, Vala Magnúsdóttir og Hrafnhildur Stefánsdóttir náðu 10% léttingu og Ólöf 14% sem er met á 8 vikum.

Stælkonur og Stubbarnir Íslandsmeistarar í línudansi

Stælkonur og stubbarnir urðu um helgina Íslandsmeistarar í línudansi í fjórða skipti. Í hópnum eru 18 konur og 2 karlar, meirihluti línudansaranna í hópnum stundar líkamsrækt á Bjargi, í hópnum voru líka fjórir kennarar frá okkur, Abba, Hóffa, Hrafnhildur og Sólrún.

Hlauparar

Nú hafa hlauparar UFA og hlaupahópur Dúnnu ákveðið að hlaupa saman í sumar. Það er frábært að sameina sig og stækka hópinn aðeins. Hlauparar hafa ákveðið að hittast 4x í viku.

Starfskynningar og óvissuhópar

Krakkarnir í 10.bekk voru að klára prófin í gær og tveir hópar frá Brekkuskóla og Síðuskóla komu hingað í línudans til Öbbu. Þau voru æðislega skemmtileg og öll í góðu skapi og dönsuðu eins og englar.

Fyrsta koma á Bjarg!

Litla stelpan hans Tryggva kom í heimsókn á föstudaginn. Hún er bara æðisleg.

Pallurinn að klárast

Útipallurinn er langt kominn og verður geggjað að geta tekið tíma úti eða fara út til þess að teygja að lokinni æfingu. Veðrið var gott um helgina og hlýtt og gott á pallinum.